Trítla

Haustið hefur alltaf sinn sjarma. Mér finnst gaman að sjá rollurnar mínar aftur á haustin og lömbin, kunningjana frá andvökunóttum vorsins. Trítla blessunin lenti í því að koma í skilaréttina. Henni fannst það nú greinilega örlítil móðgun við sitt eigið ágæti. En kom nú samt arkandi beint að dilknum okkar og heimtaði að Róbert opnaði fyrir hana og klóraði henni á bringunni í leiðinni Cool. Trítla er ótrúlega skemmtilegt apparat. Hún er fædd fjórlembingur og var á stærð við handarbakið á mér þegar hún fæddist. Og var alls ekki burðug greyið þannig að ég tók hana inn í þvottahúsið og baðaði hana úr volgu vatni og þurrkaði hana þar til hún var orðin hressari. Skokkaði svo með hana út í hús til mömmunnar sem skoðaði hana vel og vandlega, leit svo undrandi á mig, skoðaði hana aðeins betur og þeytti svo þessu fisi hreinlega upp úr stíunni. Þá voru örlög Trítlu ráðin, hún yrði heimalningur. Það hefur nú ekki þótt góður kostur á Hvalshöfða búinuGasp. Þeir heimalningar sem hér hafa verið hafa nefnilega verið annað hvort litlir eða ljótir en oftast samt hvort tveggja!! Svo ekki sé nú minnst á blessunina hana Gæfu sem bar ekki nafn með rentu svo ekki sé nú meira sagt. En hennar saga verður ekki rakin hér. Trítla kerlingin plumaði sig samt ágætlega. Í lok sauðburðar fékk hún félaga sem hét Gráni. Hann villtist undan greyið og einhverra hluta vegna slampaðist hann hingað heim. Þau undu hag sínum ágætlega við að ergja hundana og elta hænur, éta hvert einasta blóm sem var reynt að setja niður hérna og klína smurningu á bakið á sér eins og heimalningar hafa gert í áranna rás. Að hausti skildu svo leiðir , Gráni fór í hvíta húsið en Trítla var áfram hér og varð með hverjum deginum vissari um að hún væri manneskja en ekki kind. Henni fannst  nú óþarfa vesen að þurfa að þola einhverja aðra gemlinga hér á túnunum og svo ekki sé nú talað um þegar var verið að reka hjörðina inn í hús, þá þurfti hún nauðsynlega að finna sér einhverjar ástæður til að fara og hitta Róbert eða krakkana eða bara skoða eitthvað bráðmerkilegt annað enn að ramba á hliðið. . . . .og alltaf arkaði lambastrollan á eftir henni. Yfirleitt alltaf hefur hún verið í Kelagirðingu á sumrin. Ef maður á leið þar um kemur stundum stuttfætt rolla labbandi. Það er frú Trítla að ná sér í smá knús. Á veturna þegar hún er á húsi krusar hún um alla króna ef að henni sýnist mögleiki á því að fá smá klapp, sem hún auðvitað fær alltaf. En það sniðuga við hana er að hún fær aldrei neitt nema gælur og kann bara svona óskaplega vel að meta það blessunin. Ég hlakka bara til að fá hana inn í vetur.

En liflömbin eru komin inn og búið að rýja þau. Þau éta vel og ég vona að þau nýti sér bara vel þennan lúxus til að ná góðum vexti og þroska. Ég hef aldrei tekið svona snemma inn lömbin, en beitin er lítil og það verður gaman að sjá hvort þetta skilar fallegum ám þegar frá líður.

En haustverkin eru nú ekki búin. Sláturgerð er reyndar lokið en það er eftir að hakka rollur og græja hangikjötið og sennileg verða nú búin til bjúgu þetta árið.

Róbert fór í myndatöku suður um daginn og þarf að fara í aðgerð á hinni öxlinni og verður það gert í desember. Grey karlinn, þetta er nú ekki gaman fyrir hann, en heppnast vonandi eins vel og í fyrra. Ég aftur á móti prísa mig sæla fyrir að vera hraust enda eins gott því ég er svo huglaus að ég myndi aldrei þora að standa í svona aðgerðumCrying. En nú læt ég staðar numið því að koddinn kallar.

Megið þið eiga góðar stundir. Hvalshöfðabóndinn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Haustið er yndislegur tími hjá bændum, það er greinilega engin undantekning hjá þér. Trítla á eftir að launa rækilega klappið og lífgjöfina :-)

Elín (IP-tala skráð) 15.10.2012 kl. 08:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hafdís Brynja Þorsteinsdóttir

Höfundur

Haddy
Haddy

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband