Loksins lífsmark

Jæja ég ætla loksins að henda inn linu. Skammast mín eins mikið og ég get fyrir pennaletina og veit ekki hvort að borgar sig að reyna að afsaka það eitthvað, en veturinn hefur verið með latara móti hjá mér. 'Eg hélt fyrst að þetta væri aukinn aldur sem orsakaði þetta, svo datt mér í hug flestir banvænir sjúkdómar sem myndu sennilega draga mig snögglega til dauða meðan ég svæfi yfir sjónvarpinu, en ákvað svo að fara til læknis og láta athuga málið. Þar var tekið úr mér megnið af blóðinu og sett í rannsókn og niðurstaðan var sú að doktornum fannst nú eiginlega merkilegt að ég hefði haldið mér vakandi meðan að ég var að tala við hann því að járnið í mér er eiginlega í sögulegu lágmarki, það er semsagt 6 þegar lágmarkið á að vera 20. En við því er hægt að éta töflur og kjellingin bara strax orðin umtalsvert sprækari :)

Það þarf sem sagt ekki mikið til.

En ég komst semsagt á seinni helminginn í mars. Fjölskylda, vinir og nágrannar glöddu mig með heimsóknum á afmælisdaginn og alveg gommu af gjöfum. Maður verður nú hálf meyr bara yfir þessu öllu saman ( enda fylgir það sennilega háum aldri líka ) Maðurinn minn blessaður toppaði nú allt þennan dag þegar hann dró mig út í fjárhús vegna þess að það væri eitthvað að einni mislitu skepnunni. Ég skottaðist af stað og þar stóð í hesthúsinu dama nokkur sem heitir Dimmalimm :) Þessa elsku prófaði ég í hestaferð í sumar og varð dálítið ástfangin, og hann keypti hana handa mér Heart Já draumar geta greinilega ræst og æfintýrið um Dimmalimm á eftir að halda áfram

Mörg púslin í lífsins púsluspili röðuðust á sinn stað  á liðnu ári. Danni tók BA próf í uppeldisfræði síðastliðið vor og leigir nú í bænum með kærustunni og vinnur á leikskóla. Gréta lauk stúdentsprófi um áramótin og vinnur nú á leikskóla í Keflavík. Júlli hætti í brúarflokknum síðastliðið sumar og lauk sveinsprófi í húsasmíði um áramótin og útskrifast formlega á næsta laugardag. Hann er að spila með Ásgeiri Trausta og er búinn að ralla út um heiminn núna síðan í haust. Þorsteinn flutti á Patró um áramótin og var þar að klára það sem hann átti eftir í bóklegu í dreifnámi og fór svo 3 helgar á Krókinn að klára smíðina og náði öllum prófum og er nú byrjaður í Vegagerðinni. Elsa er á Leikskólanum á Hvammstanga og Elvar skólastrákur er orðinn sjö ára fluglæs og skemmtilegur.

Flott fólk semsagt 

Núna er sauðburður í kotinu, byrjaði þann 15 með sæmilegu trukki og er tæplega hálfnaður og hefur gengið vel það sem af er. Búið er að bera á og túnin farin að grænka.

Maríerlan mín er mætt á hlaðið og gleður hjartað og nágranni hennar þrösturinn er önnum kafinn við byggingaframkvæmdir á ömurlegum stað í fjárhúsunum, við kranann sem liggur frá hitakútnum.

Hann er búinn að sitja á spjaldinu í skorsteininum og syngja ástarljóð til sinnar heittelskuðu og sperra sig allan og derra en nú er grár hversdagsleikinn tekinn við hjá honum. Bagsið við að koma sér upp húsnæði og afkvæmum. En hann er samt svo skemmtilega vitlaus. Þegar hann kemur inn með gogginn fullan af stráum og maður horfir á hann þá annað hvort tekur hann á sig svaka krók að hreiðrinu eða horfir í hina áttina í þeirri von að þá sé hann alveg ósýnilegur LoL

En nú ætla ég að láta þetta duga í bili og vona að einhver hafi gaman af að fá smá fréttir úr kotinu og kannski verð ég nú virkari að henda inn smá fréttum.

Eigiði yndislegt vor

Hvalshöfðabóndinn 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er ekki fínt að koma bara með fréttir einu sinni á ári ;)

Elsa (IP-tala skráð) 21.5.2013 kl. 15:48

2 identicon

Mér finnst það nú frekar lítið, þannig að ég á sennilega eftir að nota í bland gamlar fréttir svona fyrst um sinn :)

haddý (IP-tala skráð) 21.5.2013 kl. 18:39

3 identicon

Gaman að lesa pislana þína.Til hamingju með krakkana þína.

Heiða (IP-tala skráð) 25.5.2013 kl. 20:46

4 identicon

Já þú átt yndisleg börn til hamingju með þau.

S (IP-tala skráð) 28.5.2013 kl. 06:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hafdís Brynja Þorsteinsdóttir

Höfundur

Haddy
Haddy

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband