Sumardagurinn fyrsti

Halló

Ég verð nú bara að prófa að gá hvort ég geti enn bloggað, því langt er orðið síðan síðast og sumardagurinn fyrsti er alls ekki slæmur fyrir nýtt upphaf sama á hverju það er.

Margt hefur auðvitað á dagana drifið eins og vant er og tíminn er víst ekkert að hægja á sér þó að allar hreyfingar, hugsun og framkvæmdir verði kannski hægari svona þegar maður er komin aðeins á seinni helminginn. Oft er nú kannski kostur að hægja á huganum eins og t.d um daginn þegar ég var í fjárhúsunum og horfði á hann Svarthöfða ( geipilega flotta golsótta hrútinn sem ég fékk á Tannstaðabakka). Hann er nefnilega orðinn svo spakur þessi elska að þegar maður kallar í hann þá stillir hann sér upp með framlappirnar upp á vegg þegar ég kalla : Komdu kallinn, og bíður eftir gælum Smile Þá fór hugurinn í eitt af sínum frægu misgáfulegu heljarstökkum og ég hugsaði hvað það væri sniðugt að kenna honum svona trix. Kalla í hann og klappa á bringuna á mér og fá hann til að setja lappirnar á axlirnar á mér. Svaka sniðugt , en svo þurfti heilinn endilega að halda áfram og benda skemmtilegu kátu hugsuninni minni á það að sennilega yrði þetta minna sniðugt næsta vetur þegar hann yrði orðinn fullorðinn og kannski vel yfir hundrað kíló Errm

Já maður er óneitanlega kominn til vits og ára. Einn stór kostur er líka við hvað tíminn æðir áfram er það að nú skiptir svo litlu máli þó að maður sé ekki á forstjóralaunum, því maður er eiginlega alltaf að fá útborgað.

En alltaf er nú stutt í barnið inni í manni þó svo að umbúðirnar eldist aðeins. Maríuerlan mín mætti á svæðið í gærkvöldi og hlýjaði mér um hjartaræturnar, grænir angar eru að gægjast upp úr jörðinni og fuglarnir syngja og trilla hver sem betur getur.

Þegar ég var lítil var sumardagurinn fyrsti alveg sérstök hátíð, líklega var bökuð kaka með bleiku kremi og heimasæturnar, ég og Fríða stóðum líka í stórbakstri en þær voru nú ekki kannski kræsilegar þær kökurnar, því þetta voru hinar hefðbundnu drullukökur sem voru mallaðar alltaf á sumardaginn fyrsta, næstum því sama hvernig viðraði. Það var jú komið SUMAR. Þessi blessaði dagur finnst mér ennþá vera dagur vona og væntinga ekkert síður núna heldur en þá. Sumarið er handan við hornið,grasið að grænka, lömbin fara að koma í heiminn og allt einhvernveginn bara lifnar í voninni, náttúran, dýrin  og við og dagarnir verða næstum endalausir :)

Já kannski er þetta væmið en það er bara allt í lagi. Það er örugglega mun meira nærandi fyrir sálartetrið heldur en eitthvað tuð.

En það stendur til að halda áfram að blogga og vonandi hafa einhverjir gaman af því að lesa og kíkja þannig inn í hversdagsleikann á Hvalshöfðaslotinu. Ég var nefnilega um daginn að velta fyrir mér hlutum sem veita manni gleði. Þar kom nú ýmislegt óvænt upp úr krafsinu og eitt af því var nefnilega að setja orð á blað. Afhverju veit ég ekki, en mér finnst það gaman .

Eigið góðar stundir og njótið þessa dýrðardags, sama hvað þið takið ykkur fyrir hendur, og bless í bili

Hvalshöfðabóndinn


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 identicon

Já þetta er í fullkomnu lagi og alveg satt með vorið en veit ekki með hrútinn hvort það væri þægilegt næsta eða þar næsta vetur að láta hann hoppa upp á bringuna á sér

S (IP-tala skráð) 24.4.2014 kl. 11:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hafdís Brynja Þorsteinsdóttir

Höfundur

Haddy
Haddy

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband