Sumardagurinn fyrsti

Halló

Ég verð nú bara að prófa að gá hvort ég geti enn bloggað, því langt er orðið síðan síðast og sumardagurinn fyrsti er alls ekki slæmur fyrir nýtt upphaf sama á hverju það er.

Margt hefur auðvitað á dagana drifið eins og vant er og tíminn er víst ekkert að hægja á sér þó að allar hreyfingar, hugsun og framkvæmdir verði kannski hægari svona þegar maður er komin aðeins á seinni helminginn. Oft er nú kannski kostur að hægja á huganum eins og t.d um daginn þegar ég var í fjárhúsunum og horfði á hann Svarthöfða ( geipilega flotta golsótta hrútinn sem ég fékk á Tannstaðabakka). Hann er nefnilega orðinn svo spakur þessi elska að þegar maður kallar í hann þá stillir hann sér upp með framlappirnar upp á vegg þegar ég kalla : Komdu kallinn, og bíður eftir gælum Smile Þá fór hugurinn í eitt af sínum frægu misgáfulegu heljarstökkum og ég hugsaði hvað það væri sniðugt að kenna honum svona trix. Kalla í hann og klappa á bringuna á mér og fá hann til að setja lappirnar á axlirnar á mér. Svaka sniðugt , en svo þurfti heilinn endilega að halda áfram og benda skemmtilegu kátu hugsuninni minni á það að sennilega yrði þetta minna sniðugt næsta vetur þegar hann yrði orðinn fullorðinn og kannski vel yfir hundrað kíló Errm

Já maður er óneitanlega kominn til vits og ára. Einn stór kostur er líka við hvað tíminn æðir áfram er það að nú skiptir svo litlu máli þó að maður sé ekki á forstjóralaunum, því maður er eiginlega alltaf að fá útborgað.

En alltaf er nú stutt í barnið inni í manni þó svo að umbúðirnar eldist aðeins. Maríuerlan mín mætti á svæðið í gærkvöldi og hlýjaði mér um hjartaræturnar, grænir angar eru að gægjast upp úr jörðinni og fuglarnir syngja og trilla hver sem betur getur.

Þegar ég var lítil var sumardagurinn fyrsti alveg sérstök hátíð, líklega var bökuð kaka með bleiku kremi og heimasæturnar, ég og Fríða stóðum líka í stórbakstri en þær voru nú ekki kannski kræsilegar þær kökurnar, því þetta voru hinar hefðbundnu drullukökur sem voru mallaðar alltaf á sumardaginn fyrsta, næstum því sama hvernig viðraði. Það var jú komið SUMAR. Þessi blessaði dagur finnst mér ennþá vera dagur vona og væntinga ekkert síður núna heldur en þá. Sumarið er handan við hornið,grasið að grænka, lömbin fara að koma í heiminn og allt einhvernveginn bara lifnar í voninni, náttúran, dýrin  og við og dagarnir verða næstum endalausir :)

Já kannski er þetta væmið en það er bara allt í lagi. Það er örugglega mun meira nærandi fyrir sálartetrið heldur en eitthvað tuð.

En það stendur til að halda áfram að blogga og vonandi hafa einhverjir gaman af því að lesa og kíkja þannig inn í hversdagsleikann á Hvalshöfðaslotinu. Ég var nefnilega um daginn að velta fyrir mér hlutum sem veita manni gleði. Þar kom nú ýmislegt óvænt upp úr krafsinu og eitt af því var nefnilega að setja orð á blað. Afhverju veit ég ekki, en mér finnst það gaman .

Eigið góðar stundir og njótið þessa dýrðardags, sama hvað þið takið ykkur fyrir hendur, og bless í bili

Hvalshöfðabóndinn


'oli stef og ég :)

Fátt er nú annað en gott að frétta héðan úr Firðinum fagra . Veðrið leikur við okkur og sprettan er ljómandi. Nú í kvöld sat ég og skemmti mér yfir handboltaleik Ísland Rúmenía. Mér var reyndar lítið skemmt yfir fyrri hálfleiknum en sá seinni var alveg frábær Smile. Að leiknum loknum var snillingurinn Ólafur Stefánsson heiðraður og þakkað fyrir sinn frábæra feril þar sem þetta var hans síðasti landsleikur hvorki meira né minna en sá 330. Óla þekki ég nú ekki nema í gegnum sjónvarpið, en þau skilaboð sem ég  fæ þaðan eða öllu heldur upplifun, segja mér að þarna sé auðvitað fyrir það fyrsta handboltasnillingur, vitur maður og hvers manns hugljúfi, drengur góður og jafnvel jaðri við að vera heilmikill heimspekingur í honum. Mikið var mér því skemmt þegar þessi draumur tók við afreksmerki ÍSÍ. Og ekki bara einhverju afreksmerki, heldur því fyrsta sem afhent er í sögunni.W00t Hann stóð þarna eins og hann er bara, klóraði sér í eyranu og þurrkaði af sér svitann, tók við merkinu stóreygur og opinmynntur og sagði svo þessa snilldarsetningu að líklega yrði hann búinn að týna merkinu eftir viku og að menn skyldu frekar rita nöfn sín í hjörtu mannanna frekar en að meitla þau í marmara.LoL Agalega fannst mér þetta fyndið ég gæti næstum trúað að þá hafi langað til að taka af honum þessa stórmerkilegu viðurkenningu aftur úr því að hann kynni ekki að meta hana betur en þettaLoL

Svo verð ég að láta þetta fljóta með

Óli sagði víst einhvern tímann : Ef að maður deyr í leik, þá deyr maður þó að minnsta kosti lifandi 

Allir segja að hann sé vitur maður

Ég sagði einu sinni um rollu sem hafði drepist að hún hefði verið lifandi bara rétt áður en hún dóCrying

Um það segja nú flestir að ég sé hálfvitiWoundering

Getið þið kannski sagt mér í hverju munurinn liggur???? Það er jú allt held ég lifandi þegar það deyr er það ekki annars??

Eigiði nú yndislega daga

kveðja Hvalshöfðakjellingin 


Hrossin mín

það er ýmislegt misgáfulegt sem maður veltir fyrir sér í dagsins önn. En oftar en ekki er það nú til gamans gert. Klárarnir mínir Sindri og Vængur, vinir til margra ára og félagar urðu fyrir því á afmælisdaginn minn að það bættist skvísa í hópinn. Og ó hvað hún var sæt. Þeir urðu að bregða fyrir sig betri fætinum og það sást glampi í auga þar sem þeir gerðu sig til fyrir henni hvor sem betur gat. En í þessum efnum var ekki í boði nema einn sigurvegari. . . . . það var Sindri, háaldraður hesturinn varði merina með kjafti og hófum fyrir félaga sínum sem hékk eftir það úti í horni á gerðinu milli þess sem hann rölti í humátt til þeirra þungum skrefum en uppskar í besta falli enga athygli.Errm  Svo um kvöldið urðu þau að deila hesthúsinu saman og hvað ég hló þegar þau komu út um morguninn. Drottningin kom fyrst út alveg jafn ógurlega sæt og daginn áður, svo birtust lurarnir hálf skömmustulegir hnusuðu hvor í annan og fóru svo að kljást og leika sér. Ekki hægt að láta einhverja skutlu eyðileggja alveg margra ára vinskap.  Núna ríkir sátt hjá þessum félögum þó svo að Sindri sé greinilega alveg bullandi ástfanginn, orðinn unglegur til augnanna og léttur í spori og svo sannarlega til í miklu meira heldur en getan bíður uppá LoL

Loksins lífsmark

Jæja ég ætla loksins að henda inn linu. Skammast mín eins mikið og ég get fyrir pennaletina og veit ekki hvort að borgar sig að reyna að afsaka það eitthvað, en veturinn hefur verið með latara móti hjá mér. 'Eg hélt fyrst að þetta væri aukinn aldur sem orsakaði þetta, svo datt mér í hug flestir banvænir sjúkdómar sem myndu sennilega draga mig snögglega til dauða meðan ég svæfi yfir sjónvarpinu, en ákvað svo að fara til læknis og láta athuga málið. Þar var tekið úr mér megnið af blóðinu og sett í rannsókn og niðurstaðan var sú að doktornum fannst nú eiginlega merkilegt að ég hefði haldið mér vakandi meðan að ég var að tala við hann því að járnið í mér er eiginlega í sögulegu lágmarki, það er semsagt 6 þegar lágmarkið á að vera 20. En við því er hægt að éta töflur og kjellingin bara strax orðin umtalsvert sprækari :)

Það þarf sem sagt ekki mikið til.

En ég komst semsagt á seinni helminginn í mars. Fjölskylda, vinir og nágrannar glöddu mig með heimsóknum á afmælisdaginn og alveg gommu af gjöfum. Maður verður nú hálf meyr bara yfir þessu öllu saman ( enda fylgir það sennilega háum aldri líka ) Maðurinn minn blessaður toppaði nú allt þennan dag þegar hann dró mig út í fjárhús vegna þess að það væri eitthvað að einni mislitu skepnunni. Ég skottaðist af stað og þar stóð í hesthúsinu dama nokkur sem heitir Dimmalimm :) Þessa elsku prófaði ég í hestaferð í sumar og varð dálítið ástfangin, og hann keypti hana handa mér Heart Já draumar geta greinilega ræst og æfintýrið um Dimmalimm á eftir að halda áfram

Mörg púslin í lífsins púsluspili röðuðust á sinn stað  á liðnu ári. Danni tók BA próf í uppeldisfræði síðastliðið vor og leigir nú í bænum með kærustunni og vinnur á leikskóla. Gréta lauk stúdentsprófi um áramótin og vinnur nú á leikskóla í Keflavík. Júlli hætti í brúarflokknum síðastliðið sumar og lauk sveinsprófi í húsasmíði um áramótin og útskrifast formlega á næsta laugardag. Hann er að spila með Ásgeiri Trausta og er búinn að ralla út um heiminn núna síðan í haust. Þorsteinn flutti á Patró um áramótin og var þar að klára það sem hann átti eftir í bóklegu í dreifnámi og fór svo 3 helgar á Krókinn að klára smíðina og náði öllum prófum og er nú byrjaður í Vegagerðinni. Elsa er á Leikskólanum á Hvammstanga og Elvar skólastrákur er orðinn sjö ára fluglæs og skemmtilegur.

Flott fólk semsagt 

Núna er sauðburður í kotinu, byrjaði þann 15 með sæmilegu trukki og er tæplega hálfnaður og hefur gengið vel það sem af er. Búið er að bera á og túnin farin að grænka.

Maríerlan mín er mætt á hlaðið og gleður hjartað og nágranni hennar þrösturinn er önnum kafinn við byggingaframkvæmdir á ömurlegum stað í fjárhúsunum, við kranann sem liggur frá hitakútnum.

Hann er búinn að sitja á spjaldinu í skorsteininum og syngja ástarljóð til sinnar heittelskuðu og sperra sig allan og derra en nú er grár hversdagsleikinn tekinn við hjá honum. Bagsið við að koma sér upp húsnæði og afkvæmum. En hann er samt svo skemmtilega vitlaus. Þegar hann kemur inn með gogginn fullan af stráum og maður horfir á hann þá annað hvort tekur hann á sig svaka krók að hreiðrinu eða horfir í hina áttina í þeirri von að þá sé hann alveg ósýnilegur LoL

En nú ætla ég að láta þetta duga í bili og vona að einhver hafi gaman af að fá smá fréttir úr kotinu og kannski verð ég nú virkari að henda inn smá fréttum.

Eigiði yndislegt vor

Hvalshöfðabóndinn 


Trítla

Haustið hefur alltaf sinn sjarma. Mér finnst gaman að sjá rollurnar mínar aftur á haustin og lömbin, kunningjana frá andvökunóttum vorsins. Trítla blessunin lenti í því að koma í skilaréttina. Henni fannst það nú greinilega örlítil móðgun við sitt eigið ágæti. En kom nú samt arkandi beint að dilknum okkar og heimtaði að Róbert opnaði fyrir hana og klóraði henni á bringunni í leiðinni Cool. Trítla er ótrúlega skemmtilegt apparat. Hún er fædd fjórlembingur og var á stærð við handarbakið á mér þegar hún fæddist. Og var alls ekki burðug greyið þannig að ég tók hana inn í þvottahúsið og baðaði hana úr volgu vatni og þurrkaði hana þar til hún var orðin hressari. Skokkaði svo með hana út í hús til mömmunnar sem skoðaði hana vel og vandlega, leit svo undrandi á mig, skoðaði hana aðeins betur og þeytti svo þessu fisi hreinlega upp úr stíunni. Þá voru örlög Trítlu ráðin, hún yrði heimalningur. Það hefur nú ekki þótt góður kostur á Hvalshöfða búinuGasp. Þeir heimalningar sem hér hafa verið hafa nefnilega verið annað hvort litlir eða ljótir en oftast samt hvort tveggja!! Svo ekki sé nú minnst á blessunina hana Gæfu sem bar ekki nafn með rentu svo ekki sé nú meira sagt. En hennar saga verður ekki rakin hér. Trítla kerlingin plumaði sig samt ágætlega. Í lok sauðburðar fékk hún félaga sem hét Gráni. Hann villtist undan greyið og einhverra hluta vegna slampaðist hann hingað heim. Þau undu hag sínum ágætlega við að ergja hundana og elta hænur, éta hvert einasta blóm sem var reynt að setja niður hérna og klína smurningu á bakið á sér eins og heimalningar hafa gert í áranna rás. Að hausti skildu svo leiðir , Gráni fór í hvíta húsið en Trítla var áfram hér og varð með hverjum deginum vissari um að hún væri manneskja en ekki kind. Henni fannst  nú óþarfa vesen að þurfa að þola einhverja aðra gemlinga hér á túnunum og svo ekki sé nú talað um þegar var verið að reka hjörðina inn í hús, þá þurfti hún nauðsynlega að finna sér einhverjar ástæður til að fara og hitta Róbert eða krakkana eða bara skoða eitthvað bráðmerkilegt annað enn að ramba á hliðið. . . . .og alltaf arkaði lambastrollan á eftir henni. Yfirleitt alltaf hefur hún verið í Kelagirðingu á sumrin. Ef maður á leið þar um kemur stundum stuttfætt rolla labbandi. Það er frú Trítla að ná sér í smá knús. Á veturna þegar hún er á húsi krusar hún um alla króna ef að henni sýnist mögleiki á því að fá smá klapp, sem hún auðvitað fær alltaf. En það sniðuga við hana er að hún fær aldrei neitt nema gælur og kann bara svona óskaplega vel að meta það blessunin. Ég hlakka bara til að fá hana inn í vetur.

En liflömbin eru komin inn og búið að rýja þau. Þau éta vel og ég vona að þau nýti sér bara vel þennan lúxus til að ná góðum vexti og þroska. Ég hef aldrei tekið svona snemma inn lömbin, en beitin er lítil og það verður gaman að sjá hvort þetta skilar fallegum ám þegar frá líður.

En haustverkin eru nú ekki búin. Sláturgerð er reyndar lokið en það er eftir að hakka rollur og græja hangikjötið og sennileg verða nú búin til bjúgu þetta árið.

Róbert fór í myndatöku suður um daginn og þarf að fara í aðgerð á hinni öxlinni og verður það gert í desember. Grey karlinn, þetta er nú ekki gaman fyrir hann, en heppnast vonandi eins vel og í fyrra. Ég aftur á móti prísa mig sæla fyrir að vera hraust enda eins gott því ég er svo huglaus að ég myndi aldrei þora að standa í svona aðgerðumCrying. En nú læt ég staðar numið því að koddinn kallar.

Megið þið eiga góðar stundir. Hvalshöfðabóndinn


Heppin

Það verður sennilega seint um mig sagt að ég sé barnakerling eða barnagæla.

En mikil ósköp hef ég oft gaman af þessum litlu manneskjum og stundum óska ég þess að maður sæi heiminn oftar með augum barnsins og kynni að meta hlutina eftir þeirra mælikvarða.

Barnabarnið er orðinn skólastrákur. Það er sko enginn smá áfangi. Hann var um daginn í einhverjum heimspekilegum pælingum um gamalt fólk.

Afi hans til dæmis ( Róbert ) er víst svo gamall að hann er þakinn skalla LoL. Einhverra hluta vegna reyndi afinn ekki að þessu sinni að segja söguna um það að hann hefði dottið á sundlaugarbakka og fengið ör á hausinn en væri ekki með skalla. Líklega getið sér þess til að enginn myndi trúa því að ör næði yfir svona stórt svæði Crying. Svo sagði Elvar líka mömmu sinni að þegar hann hefði verið hjá pabba sínum um daginn hefði hann heimsótt langömmu sína. Hún væri rosalega gömul og héti Fjóla. Hún gæti samt alveg labbað ennþá þó að henni væri illt í tánni. En hún væri samt svo gömul að kannski einhvern tímann þegar þeir væru að kveðja hana myndi hún segja: Bíddu aðeins. Og svo myndi hún bara deyja Wink 

Greinilega mjög gömul kona.

En um daginn vorum við að gera slátur í vinnunni kjellurnar. Auðvitað verður að viðurkennast að það er ekki mesta tilhlökkunar efni í heimi að stappa í sláturgerð fram eftir kvöldi eftir fullan vinnudag en það er auðvitað bara verk sem þarf að vinna. Klukkan rúmlega fjögur bættust í hópinn tvær konur frá Hvammstanga og önnur þeirra var með stelpuna sína með sér.

Og þessi stelpa, hún var svo heppin. Afhverju? Jú hún var svo heppin af því að hún fékk að hjálpa aðeins til og fékk hanska og svuntu. Svo sagðist hún lika vera svo heppin af því að hún ætti ömmu sem ynni á svona skemmtilegum staðLoL

Já maður man ekki alltaf eftir því hvað er mikil lukka yfir manni.

 Bara það að vakna á morgnanna, hafa heilsu til að stunda vinnu og eiga fjölskyldu og vini og vera svo heppin að geta yfir höfuð notið hversdagsleikans.

Ég ætla að minna mig á að kíkja oftar á daginn með augum barnsins.

Bestu kveðjur Hvalshöfðabóndinn


Loksins

Úff ég er ekki að standa mig í því að setja hér inn fréttir, hugleiðingar eða almennt bull. En nú verður stiklað á stóru frá því síðast.

Ég er farin að vinna í skólanum aftur og þar er allt að komast í rútínu og börnin/ unglingarnir koma hress og kát úr sumarfríinu þó svo að sum þeirra hafi stækkað óþyrmilega mikið a.m.k í samanburði við litla kjellingartítlu úr ´Hrútafirðinum.

Réttirnar og þeirra undirbúningur er búinn. Við kvenfélagskonurnar vorum með kaffisölu og hlutaveltu í Tungubúð eins og venju. Ég held samt að ég hafi ekki áður fundið eins almenna löngun til að hætta þessu vafstri eins og þetta haustið Frown. Enda ekki skrítið, það er nóg að gera allsstaðar og kaffisalan virðist fara minnkandi og afraksturinn rétt hangir í að reka þetta hús og ekki einu sinni eins og við myndum vilja reka það. Við höfum t.d ekki efni á því að kynda það allt árið. En þetta er liðið og ekki búið að taka neina ákvörðun um breytingar.

Auðvitað áttum við notalega samveru þarna þessar 3 til 4 sem vorum að þrífa og undirbúa tombóluna en það segir kannski svolítið um það að við erum farnar að eldast að þegar við settumst niður á eftir og fengum okkur kaffisopa, þá var megið þemað í reynslusögunum, hverju við höfðum týnt síðast, hversu lengi það var týnt og hvar við fundum það svo aftur LoL. Held samt að það toppi enginn undirritaða að týna sínum eigin gleraugum í sólarhring . Það er nú ekki eins og nokkur noti þau nema ég.

Róbert er auðvitað kominn heim og búinn að moka út úr húsunum og setja niður frárennsli á þakrennurnar en allir aðrir eru fluttir að heiman. Þorsteinn er í skólanum á Króknum, Danni farinn að búa í bænum með kærustunni og Júlli fluttur í bæinn líka. Hann klárar samt smíðanámið ( sem er í fjarnámi) frá króknum þannig að hann á leið hér hjá þriðju hverja helgi. Júlli er að spila með Ásgeiri Trausta ( Pálínu og Einarssyni ) sem var að gefa út sinn fyrsta disk núna 11. sept. þannig að við höfum nú fengið að sjá hann í sjónvarpinu undanfarin kvöld. Annars er hann hérna núna því það eru útgáfutónleikar á Hvammstanga í kvöld. Það verður gaman.

Kíktum aðeins í Hvalsárrétt í gær. Hitti þar fullt af fólki sem maður þekkti vel í gamla daga og kyssti mann og annan. Þetta var voða notalegt og alltaf gaman að vara í réttakaffi þar í gamla skúrnum og sitja við eldgömlu skólaborðin sem hafa þar fengið nýtt hlutverk.

En ekki meira að sinni

Bestu kveðjur Hvalshöfða bóndinn


Fyrir þá sem hafa gaman af smá bulli

Hendi hérna inn smá frétt sem ég var beðin að skrifa um hænurnar sem krakkarnir í skólanum unguðu út í vetur, þær lentu í því að verða húsnæðislausar greyin því að það brann ofan af þeim kofinn í vetur.

Smá fréttir af hinu lífsreyndu skólapúddum.

Hænurnar una hag sínum ljómandi vel á Syðri Völlum.

Spóka sig þar um frjálsar og frískar á hlaðinu og búa í gám. Við reiknuðum nú kannski með að þær myndu hætta að verpa eftir brunann því þær voru nýbyrjaðar að verpa þegar hann var. En það var nú aldeilis ekki raunin. Ég held að þær hafi varla misst úr dag.

Reyndar varð að láta Vilhjálm hinn víðförla hverfa af vettvangi yfir í hinar eilífu hænsnalendur, vegna þess að hann var farinn að þjást verulega af hænsfuglaáfallastreituröskun eða einhverju þaðan af lengra og verra. Fyrst var náttúrulega bruninn, svo tók hinn haninn af honum allar hænurnar og loks lenti hann í þeim hörmungum að hlaupa í loftköstum niður alla heimreiðina á Syðri Völlum með hund á eftir sér og á eftir hundinum hljóp ólétt kona. Þessi sýn minnti óneitanlega á æfintýrið um Gullgæsina forðum daga, nema að Vilhjálmi datt ekki í hug að verpa neinum gulleggjum eftir þetta. Hann faldi sig bara í heilan dag og sinnti því engu þó að væri lýst eftir honum á facebook. Í framhaldinu varð hann síðan alveg hræðilega geðvondur og réðst á mann og annan.

En ungi haninn unir hag sínum vel með allar kjellingarnar sínar. Haddý hæna tók upp á því einn daginn að haga sér eitthvað undarlega. Hún fór að hverfa dagpart og hætti að elta Pálma út um allt og heimta af honum mat. Þegar hann fór að gá að henni þá fann hann kjellu þar sem hún var búin að útbúa sér þetta fína hreiður í kjallaranum undir húsinu og búin að verpa í það hvorki meira né minna en fimmtán eggjum. Hún er alveg heillengi að koma sér fyrir á þessu greyið en vonandi tekst þetta hjá henni.

En Haddý hæna á vinkonu. Þegar hænunum er hleypt út á morgnanna þá stendur ein pútan við dyrnar og ávítar Pálma harðlega ef að hann er ekki nógu fljótur að hleypa þeim út. Þegar hún sleppur út fyrir þá tekur hún á sprett, á mjög glæsilegu hænsnahlaupi, beint í kjallarann að heimsækja Haddý hænu vinkonu sína, nú eða að éta frá henni matinn :). Við erum búin að skíra þessa hænu Guðrúnu Ósk.

Svona er lífið hjá púddunum í sveitinni

Með bestu kveðju

Haddý á Hvalshöfða


Tíminn flýgur

Já tíminn geysist áfram og ég á í fullu fangi með að halda í við hannSmile. Heyið er komið heim og nú er aldeilis búið að rigna þannig að liturinn á Höfðanum er farinn að breytast úr gulu yfir í grænt.

Litla Grétan mín er búin að eiga afmæli og orðin 22 ára, eins og það er nú stutt síðan ég leit hana augum fyrst, með stóru kinnarnar sínar og koparhárið. Ég hélt nú reyndar að þetta barn ætlaði aldrei að fæðast því að hún lét bíða dálitið eftir sér, sjálfsagt haft grun um að væri best að njóta þess sem lengst að vera í einrúmi áður en hún kæmi í þessa stóru fjölskyldu sem beið hennar í ofvæni. Pabbi blessaður var í sumarfríi og var hjá Fríðu þar sem ég og bumban biðum þess sem verða vildi. En seinasta daginn hans í fríinu þóknaðist dömunni að koma í heiminn. Elsku kallinn, ég verð ennþá væmin þegar ég hugsa til þess þegar hann kom í heimsókn að kíkja á okkur með risastórann konfektkassa og afhenti mér hann með þeim orðum að hann hefði nú aldrei komið með svona fyrir mömmu í gamla daga. Þarna vorum við Gréta svo í besta yfirlæti í fimm daga. Það var nú litið um heimsóknir því að Róbert var að keyra flutningabíl, Fríða var farin í ferðalag og pabbi búinn með fríið sitt. En endalaus traffík hjá konunni við hliðina á mér. Svo einn heimsóknartímann gægðist yfir til mín maður sem var í heimsókn hjá henni þar sem ég var að leika mér með barnið og brosti vinalega og sagði : Góða kvöldið unga móðir, er þetta fyrsta barnið þitt ? Neibb svaraði ég þetta er það fjórða!!! Þá fór hann bara, sennilega haldið að þetta gæti ekki staðistTounge

En undanfarna daga er ég heldur betur búin að vera að leika mér. Ríða þvers og krus um byggðarlagið eiginlega frá þrettánda Júlí og hafa það mjög fínt. Veðrið sýndi sparihliðina á meðan við vorum á baki og lét svo rigna þegar við vorum komin í áfangastað.Cool 

Áfangarnir voru þessir : Norðurbraut - Gauksmýri, Gaukmýri - Hvoll, þaðan var svo riðið í messu á Breiðabólsstað og svo aftur í Hvol, frá Hvoli fórum við svo aðra leið á Gauksmýri, Gauksmýri- Syðri Vellir svo var hlé í einn dag. Syðri Vellir - Staðarbakki, Staðarbakki- Hvalshöfði, Hvalshöfði- Sólheimar, Sólheimar- Brandagil, Brandagil yfir háls og Vesturárdalinn - Syðri Vellir, og þá var kominn sunnudagur. Hross og menn voru yndisleg og allstaðar þar sem við stoppuðum voru dásemdar móttökur.

Nú er unglistarvikan að bresta á hér í héraði og fjölgar í kotinu. 

Róbert er að keyra túristana og Elsa og Elvar eru í sumarfríi. 

Hænur og hundar hafa það fínt, amk eftir að hænurnar lærðu að láta matinn hans Teits vera.

Þá er ekki meira að segja að sinni´.

Eigiði ljúfar stundir


sumar

já það er sko sumar. Fyrrislætti er lokið nema það á eftir að koma rúllunum heim. Júlli þessi elska ætlar að taka það að sér eftir helgi ef við fáum lánaðan vagn þá. Auðvitað er nú ekki allt búið að ganga þrautalaust fyrir sig frekar en fyrri daginn. Því eins og Keli segir ( með rellutón) Já en hún eyðileggur ALLTAF eitthvaðCrying. Um daginn fór olíurör í Massanum, heytætlan fór að banka úr sér tindana af því að fór í henni splitti og sláttuvélin hefur aldrei litið eins illa út því hún er tvisvar búin að brjóta splitti í yfirstönginni á sér en virkar samt svona ljómandi. Kúplingin í Zetor neitaði að virka þegar var pínulítið eftir að slá á Stað. Ég gat nú samt klárað að slá með þvi að drepa á vélinni og setja hann í gírinn og lúsast svo heim. Viðurkenni það að ég blótaði örlítið þann daginnDevil. Bragi bróðir kom í heimsókn þegar hann var á leiðinni norður á Húsavík og gisti. Það var virkilega gaman. Við spjölluðum um heima og geima. Hann kom svo við í fyrradag þessi elska. þegar hann var á heimleið og kíkti á Zetor og komst að  því hvað var að angra gripinn. Það var semsagt dæla í kúplingunni ( kúplingsþræll ) sem var farinn og varahluturinn er kominn í hús en það er eftir að koma honum í. En mikið var ég fegin að það var ekki neitt stórfenglegra en þetta. 'A laugardaginn síðasta þegar ég var búin að slá allt fór ég með nokkrum frískum konum í reiðtúr upp frá Kjörseyri. Við vorum 15 kjellur og það var riðið upp frá Kjörseyri og að eyðibýli sem heitir Kvíslarsel. Þar var stoppað góða stund og hross og konur nærðu sig. Onni hafði fylgt okkur ásamt tengdasyni sínum og þeir stjönuðu við okkur á alla lund. Í selinu sagði hann okkur svo sögur frá liðinni tíð og ábúendum þarna á staðnum. Hann segir svo skemmtilega frá hann Onni og er svo fróður kall. En hann skuldar mér samt vísu eftir daginn Smile og nota bene verður minntur á það reglulega í hvert skipti sem ég kem til með að hitta hann. Eftir stoppið var riðin sama leið til baka og endað á Kjörseyri í heljarinnar grillveislu. Eins og alltaf þar sem konur eru komnar saman var að sjálfsögðu spjallað mikið og hlegið litlu minna. Þetta var alveg frábær dagur. Vængur minn stóð sig vel eins og vant er fyrir utan það að einverra hluta vegna þá eru merar alltaf ehv argar út í hann þó að hann sé ekki að gera neitt nema vera sæturHalo. Þær hvía á hann og bíta í hann og reyna að sparka í hann. Svo þegar við erum á heimleið þá ríður ein konan þétt fyrir aftan okkur og þá gerði piltur sér lítið fyrir og sparkaði í hestinn hennar. Ég skammaðist mín ógurlega og hann sennilega eins mikið og hann gatFrown. Sennilega ekkert semsagt. Ég lánaði Ólöfu vinkonu Sindra. Hún var eins og drottning kjellingin þó svo að hun segðist ekki hafa farið á bak í fimm ár eða ehv.

Á sunnudeginum hellirigndi þannig að það var ekkert átt við hey. Á mánudeginum var svo rifjað og það var svoleiðis brakandi þurrkur að á þriðjudeginum fór ég bara beint í að garða. Það fór nú allur dagurinn í það. Bára og Ella voru staddar á Stað og ég ákvað að kíkja í kaffi til þeirra í hádeginu og var sko ekki svikin af því. Gaman að spjalla við þessar konur. Um kaffileytið var ég svo komin upp að kirkjunni og var að raka með hrífu utan með. Þá kemur Eiríkur gamli út og kallar í mig. Þá var hann búinn að leggja á borð dýrindis bolla, hella á könnuna og baka vöfflur með rjóma. Bára og Ella voru þarna lika og við áttum aftur góða stund. Þetta er sjarminn í sveitinni Cool. Þó svo að maður hitti ekki fólkið í langan tíma þá er einvernvegin allt eins. Gefa sér smá tíma i amstrinu og það skilur helling eftir sig. En mál að linni með sól í sinniCool


Næsta síða »

Um bloggið

Hafdís Brynja Þorsteinsdóttir

Höfundur

Haddy
Haddy

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband