Færsluflokkur: Heimspeki

Sumardagurinn fyrsti

Halló

Ég verð nú bara að prófa að gá hvort ég geti enn bloggað, því langt er orðið síðan síðast og sumardagurinn fyrsti er alls ekki slæmur fyrir nýtt upphaf sama á hverju það er.

Margt hefur auðvitað á dagana drifið eins og vant er og tíminn er víst ekkert að hægja á sér þó að allar hreyfingar, hugsun og framkvæmdir verði kannski hægari svona þegar maður er komin aðeins á seinni helminginn. Oft er nú kannski kostur að hægja á huganum eins og t.d um daginn þegar ég var í fjárhúsunum og horfði á hann Svarthöfða ( geipilega flotta golsótta hrútinn sem ég fékk á Tannstaðabakka). Hann er nefnilega orðinn svo spakur þessi elska að þegar maður kallar í hann þá stillir hann sér upp með framlappirnar upp á vegg þegar ég kalla : Komdu kallinn, og bíður eftir gælum Smile Þá fór hugurinn í eitt af sínum frægu misgáfulegu heljarstökkum og ég hugsaði hvað það væri sniðugt að kenna honum svona trix. Kalla í hann og klappa á bringuna á mér og fá hann til að setja lappirnar á axlirnar á mér. Svaka sniðugt , en svo þurfti heilinn endilega að halda áfram og benda skemmtilegu kátu hugsuninni minni á það að sennilega yrði þetta minna sniðugt næsta vetur þegar hann yrði orðinn fullorðinn og kannski vel yfir hundrað kíló Errm

Já maður er óneitanlega kominn til vits og ára. Einn stór kostur er líka við hvað tíminn æðir áfram er það að nú skiptir svo litlu máli þó að maður sé ekki á forstjóralaunum, því maður er eiginlega alltaf að fá útborgað.

En alltaf er nú stutt í barnið inni í manni þó svo að umbúðirnar eldist aðeins. Maríuerlan mín mætti á svæðið í gærkvöldi og hlýjaði mér um hjartaræturnar, grænir angar eru að gægjast upp úr jörðinni og fuglarnir syngja og trilla hver sem betur getur.

Þegar ég var lítil var sumardagurinn fyrsti alveg sérstök hátíð, líklega var bökuð kaka með bleiku kremi og heimasæturnar, ég og Fríða stóðum líka í stórbakstri en þær voru nú ekki kannski kræsilegar þær kökurnar, því þetta voru hinar hefðbundnu drullukökur sem voru mallaðar alltaf á sumardaginn fyrsta, næstum því sama hvernig viðraði. Það var jú komið SUMAR. Þessi blessaði dagur finnst mér ennþá vera dagur vona og væntinga ekkert síður núna heldur en þá. Sumarið er handan við hornið,grasið að grænka, lömbin fara að koma í heiminn og allt einhvernveginn bara lifnar í voninni, náttúran, dýrin  og við og dagarnir verða næstum endalausir :)

Já kannski er þetta væmið en það er bara allt í lagi. Það er örugglega mun meira nærandi fyrir sálartetrið heldur en eitthvað tuð.

En það stendur til að halda áfram að blogga og vonandi hafa einhverjir gaman af því að lesa og kíkja þannig inn í hversdagsleikann á Hvalshöfðaslotinu. Ég var nefnilega um daginn að velta fyrir mér hlutum sem veita manni gleði. Þar kom nú ýmislegt óvænt upp úr krafsinu og eitt af því var nefnilega að setja orð á blað. Afhverju veit ég ekki, en mér finnst það gaman .

Eigið góðar stundir og njótið þessa dýrðardags, sama hvað þið takið ykkur fyrir hendur, og bless í bili

Hvalshöfðabóndinn


'oli stef og ég :)

Fátt er nú annað en gott að frétta héðan úr Firðinum fagra . Veðrið leikur við okkur og sprettan er ljómandi. Nú í kvöld sat ég og skemmti mér yfir handboltaleik Ísland Rúmenía. Mér var reyndar lítið skemmt yfir fyrri hálfleiknum en sá seinni var alveg frábær Smile. Að leiknum loknum var snillingurinn Ólafur Stefánsson heiðraður og þakkað fyrir sinn frábæra feril þar sem þetta var hans síðasti landsleikur hvorki meira né minna en sá 330. Óla þekki ég nú ekki nema í gegnum sjónvarpið, en þau skilaboð sem ég  fæ þaðan eða öllu heldur upplifun, segja mér að þarna sé auðvitað fyrir það fyrsta handboltasnillingur, vitur maður og hvers manns hugljúfi, drengur góður og jafnvel jaðri við að vera heilmikill heimspekingur í honum. Mikið var mér því skemmt þegar þessi draumur tók við afreksmerki ÍSÍ. Og ekki bara einhverju afreksmerki, heldur því fyrsta sem afhent er í sögunni.W00t Hann stóð þarna eins og hann er bara, klóraði sér í eyranu og þurrkaði af sér svitann, tók við merkinu stóreygur og opinmynntur og sagði svo þessa snilldarsetningu að líklega yrði hann búinn að týna merkinu eftir viku og að menn skyldu frekar rita nöfn sín í hjörtu mannanna frekar en að meitla þau í marmara.LoL Agalega fannst mér þetta fyndið ég gæti næstum trúað að þá hafi langað til að taka af honum þessa stórmerkilegu viðurkenningu aftur úr því að hann kynni ekki að meta hana betur en þettaLoL

Svo verð ég að láta þetta fljóta með

Óli sagði víst einhvern tímann : Ef að maður deyr í leik, þá deyr maður þó að minnsta kosti lifandi 

Allir segja að hann sé vitur maður

Ég sagði einu sinni um rollu sem hafði drepist að hún hefði verið lifandi bara rétt áður en hún dóCrying

Um það segja nú flestir að ég sé hálfvitiWoundering

Getið þið kannski sagt mér í hverju munurinn liggur???? Það er jú allt held ég lifandi þegar það deyr er það ekki annars??

Eigiði nú yndislega daga

kveðja Hvalshöfðakjellingin 


Hrossin mín

það er ýmislegt misgáfulegt sem maður veltir fyrir sér í dagsins önn. En oftar en ekki er það nú til gamans gert. Klárarnir mínir Sindri og Vængur, vinir til margra ára og félagar urðu fyrir því á afmælisdaginn minn að það bættist skvísa í hópinn. Og ó hvað hún var sæt. Þeir urðu að bregða fyrir sig betri fætinum og það sást glampi í auga þar sem þeir gerðu sig til fyrir henni hvor sem betur gat. En í þessum efnum var ekki í boði nema einn sigurvegari. . . . . það var Sindri, háaldraður hesturinn varði merina með kjafti og hófum fyrir félaga sínum sem hékk eftir það úti í horni á gerðinu milli þess sem hann rölti í humátt til þeirra þungum skrefum en uppskar í besta falli enga athygli.Errm  Svo um kvöldið urðu þau að deila hesthúsinu saman og hvað ég hló þegar þau komu út um morguninn. Drottningin kom fyrst út alveg jafn ógurlega sæt og daginn áður, svo birtust lurarnir hálf skömmustulegir hnusuðu hvor í annan og fóru svo að kljást og leika sér. Ekki hægt að láta einhverja skutlu eyðileggja alveg margra ára vinskap.  Núna ríkir sátt hjá þessum félögum þó svo að Sindri sé greinilega alveg bullandi ástfanginn, orðinn unglegur til augnanna og léttur í spori og svo sannarlega til í miklu meira heldur en getan bíður uppá LoL

Loksins lífsmark

Jæja ég ætla loksins að henda inn linu. Skammast mín eins mikið og ég get fyrir pennaletina og veit ekki hvort að borgar sig að reyna að afsaka það eitthvað, en veturinn hefur verið með latara móti hjá mér. 'Eg hélt fyrst að þetta væri aukinn aldur sem orsakaði þetta, svo datt mér í hug flestir banvænir sjúkdómar sem myndu sennilega draga mig snögglega til dauða meðan ég svæfi yfir sjónvarpinu, en ákvað svo að fara til læknis og láta athuga málið. Þar var tekið úr mér megnið af blóðinu og sett í rannsókn og niðurstaðan var sú að doktornum fannst nú eiginlega merkilegt að ég hefði haldið mér vakandi meðan að ég var að tala við hann því að járnið í mér er eiginlega í sögulegu lágmarki, það er semsagt 6 þegar lágmarkið á að vera 20. En við því er hægt að éta töflur og kjellingin bara strax orðin umtalsvert sprækari :)

Það þarf sem sagt ekki mikið til.

En ég komst semsagt á seinni helminginn í mars. Fjölskylda, vinir og nágrannar glöddu mig með heimsóknum á afmælisdaginn og alveg gommu af gjöfum. Maður verður nú hálf meyr bara yfir þessu öllu saman ( enda fylgir það sennilega háum aldri líka ) Maðurinn minn blessaður toppaði nú allt þennan dag þegar hann dró mig út í fjárhús vegna þess að það væri eitthvað að einni mislitu skepnunni. Ég skottaðist af stað og þar stóð í hesthúsinu dama nokkur sem heitir Dimmalimm :) Þessa elsku prófaði ég í hestaferð í sumar og varð dálítið ástfangin, og hann keypti hana handa mér Heart Já draumar geta greinilega ræst og æfintýrið um Dimmalimm á eftir að halda áfram

Mörg púslin í lífsins púsluspili röðuðust á sinn stað  á liðnu ári. Danni tók BA próf í uppeldisfræði síðastliðið vor og leigir nú í bænum með kærustunni og vinnur á leikskóla. Gréta lauk stúdentsprófi um áramótin og vinnur nú á leikskóla í Keflavík. Júlli hætti í brúarflokknum síðastliðið sumar og lauk sveinsprófi í húsasmíði um áramótin og útskrifast formlega á næsta laugardag. Hann er að spila með Ásgeiri Trausta og er búinn að ralla út um heiminn núna síðan í haust. Þorsteinn flutti á Patró um áramótin og var þar að klára það sem hann átti eftir í bóklegu í dreifnámi og fór svo 3 helgar á Krókinn að klára smíðina og náði öllum prófum og er nú byrjaður í Vegagerðinni. Elsa er á Leikskólanum á Hvammstanga og Elvar skólastrákur er orðinn sjö ára fluglæs og skemmtilegur.

Flott fólk semsagt 

Núna er sauðburður í kotinu, byrjaði þann 15 með sæmilegu trukki og er tæplega hálfnaður og hefur gengið vel það sem af er. Búið er að bera á og túnin farin að grænka.

Maríerlan mín er mætt á hlaðið og gleður hjartað og nágranni hennar þrösturinn er önnum kafinn við byggingaframkvæmdir á ömurlegum stað í fjárhúsunum, við kranann sem liggur frá hitakútnum.

Hann er búinn að sitja á spjaldinu í skorsteininum og syngja ástarljóð til sinnar heittelskuðu og sperra sig allan og derra en nú er grár hversdagsleikinn tekinn við hjá honum. Bagsið við að koma sér upp húsnæði og afkvæmum. En hann er samt svo skemmtilega vitlaus. Þegar hann kemur inn með gogginn fullan af stráum og maður horfir á hann þá annað hvort tekur hann á sig svaka krók að hreiðrinu eða horfir í hina áttina í þeirri von að þá sé hann alveg ósýnilegur LoL

En nú ætla ég að láta þetta duga í bili og vona að einhver hafi gaman af að fá smá fréttir úr kotinu og kannski verð ég nú virkari að henda inn smá fréttum.

Eigiði yndislegt vor

Hvalshöfðabóndinn 


Um bloggið

Hafdís Brynja Þorsteinsdóttir

Höfundur

Haddy
Haddy

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband