Afmælis

Í dag á afmæli maður sem mér finnst undurvænt um. Maður sem var einusinni drengur og sá drengur var alltaf ljúfur, góður,glaður og þolinmóður við litla stelpu sem dáðist full mikið að honum og ekki síður dótinu hans sem var auðvitað það flottasta í þá daga. Þessi drengur átti nefnilega ótrúlega flottan kranabíl með alvöru halíukrana sem var hægt að hífa um alskonar dót í. Í þá daga var ekki eins mikið um dót og núna og drengur geymdi þetta djásn afar vel svo að það myndi ekki skemmast. Ekki samt svo vel að væri ekki hægt að laumast í hann og hífa upp eitthvað drasl  þangað til spottinn annað hvort flæktist eða slitnaði. Ekki man ég nú samt eftir skömmum fyrir vikið. 

Þessi drengur var líka ákaflega handlaginn. Hann smíðaði fyrir okkur systurnar riffla sem voru geðveikirTounge. Efniviðurinn í þá voru brotin hrífusköft og svo var hægt að hengja þá á öxlina meðan maður þeysti um á fákum sem voru líka smíðaðir af sama manni úr brotnum hrífusköftum og settir naglar neðan á þá svo að heyrðist svona alvöru hófatak.  Villta vestrið var staðsett á bæjarhólnum þar sem Kid Curry og Hannibal Heys háðu baráttur við indjána og vonda kalla daginn út og daginn inn..

Eftir að pabbi uppgötvaði ást okkar systra á hrífusköftum þá ákvað hann að það væri rétt að láta okkur raka daginn út og daginn inn í heyskapnumAngry. Það var hundleiðinlegt, ef ekki hefði verið fyrir þennan dreng. Alltaf gaf hann sér tíma fyrir glens og leiki þegar færi gafst. Og trítlurnar biðu spenntar þegar var verið að taka saman og hann var á rakstrarvélinni að fá þó ekki væri nema eina grettu þegar hann keyrði hjá. Þá gátum við flissað eins og okkur var einum lagið og bannsettur raksturinn varð talsvert léttari fyrir vikið.

Hann kenndi okkur badminton og nennti að spila við okkur fótbolta þó að liðin væru þunnskipuð. Ég í marki, Fríða Fram og hann KRLoL.

Svo liðu árin og allir urðu stórir ( sumir reyndar minni en aðrir) og nú erum við fullorðið fólk og þessi afmælisdrengur er orðinn afmæliskall. Ljúfur, góður, glaður, þolinmóður, duglegur og frábær maður í alla staðiSmile.Til hamingju með daginn Kiddi minn


þannig er nú það

Þjóðhátíðardagurinn ný yfirstaðinn og hversdagsleikinn leikur sitt ljúfasta lag.

Ein kind er enn óborin og er í húsunum ásamt vinkonu sinni. Veit nefnilega ekki með kindur hvort að þeim er ekki nauðsynlegt að hafa félagsskap eins og svo mörgum öðrum lífverum. Kannski hafði ég bara svona mikla samkennd með henni því að í gær fór Róbert í fyrsta túrinn og ég sit hérna ein í kotinu og læt mig dreyma um að vera svakalega dugleg. En einhverra hluta vegna er ég ekki  vöknuð af þeim draumi ennþá og sit hér við tölvuna og læt gamminn geisa.

Mér finnst nú yfirleitt ekkert leiðinlegt að vera ein, enda ekki mikið mál að finna sér eitthvað til að hafa fyrir stafni plús það að hafa ferfætta vini sem snerta við sálinni á manni. Ef að það er eitthvað sem mig vantar þá er það rigning og helst mikið af henni. Það er bókstaflega allt að skrælna hérna, grasið horfið af höfðanum og vatnið er í pollum í læknum. Það væri ýkjur að segja að það renni.

En það er um að gera að lifa í núinu og nota tækifærið til annara verka þangað til sprettan glæðist og heyskapur byrjar af fullum krafti.

Ég heyrði í  Kela gamla í gær. Hann var frekar hress. Nöldraði samt aðeins yfir því að sonur hans hafði rifið pallinn frá húsinu á Brandagili. " Hann dró þetta frá með traktornum, andskotans vinnubrögð að eyðileggja pallinn ( sem nota bene var örugglega grautfúinn og ónýtur hvort sem var ). Ég sagði við hann að fyrir einhverjum árum hefði hann nú örugglega notað sömu aðferðina. " Nei alls ekki, ég hefði tekið þetta í tveim hlutum " sagði sá gamli. Já en ég er nú samt viss um að þú hefðir notað traktorinn á þetta , sagði ég . Þá skellihló kallinn og kallaði mig helvítið sitt og þá leið mér alveg ljómandi vel Smile.

Það er mælikvarðinn á að Keli sé hress ef að hann getur blótað nokkrum sinnum í frekar stuttu samtali.Devil

Svo er ýmislegt að hlakka til, ég ætla að fara að skrölta um héraðið á klárunum mínum og síðan er Kusuhátíðin um helgina í Borgarfirðinum. Kíkti aðeins þangað í fyrra með Elvar og hann átti setningu kvöldsins, þegar hann hrópaði upp yfir sig í einlægri gleði: Amma!!! Ég fann hundasúrur í kvöldmatinn!!! Þannig að sennilega er betra að hafa meira nesti með ef við förum Crying

Ég  er samt ekki enn komin með neinn landmótsfíling, veit ekki afhverju. En þetta kemur allt í ljós. Svo verður vonandi færi á smá hestaferðum og eitthvað meira gaman.

En ekki meir í bili

Eigiði góða daga og ekki myndi nú spilla fyrir að taka regndansinn, það er holl og góð hreyfingLoL


Fegurðin er í auga þess sem horfir

Stundum er sagt að fegurðin sé í auga þess sem horfir. Nú eru sjálfsagt einhverjir sem að hugsa um Fjörðinn minn fagra í þessu samhengi og það má svo sem rétt vera. En það er önnur saga.

Í lok maí bar gemlingur hrútlambi sem var ehv bæklað á afturlöppunum og gat engan veginn staðið eða gengið. En lifsviljinn var ótrúlegur og ef að maður hélt undir hann þá drakk hann af krafti og lét engan bilbug á sér finna. Einhverjar rökræður urðu nú á milli okkar hjónanna um þennan einstakling Grin en það verður ekkert rakið hér. Gemlingurinn var bundinn í tvo daga svo hann væri ekki að krafsa lambið í klessu og lambið látið drekka á klst fresti, reyndar læddist nú að mér sú hugsun að þá yrði hann svo feitur og þungur að hann gæti sennilega bara aldrei staðið.Crying. En hann brattaðist með hverjum deginum. Og þegar ég kíkti á hann í morgun þar sem hann skottaðist um stíuna sína, reyndar ennþá dálítið útskeifur á vinstri afturlöppinni ( en hver er það ekki svosem) datt mér í hug þessi speki að fegurðin sé í auga þess sem horfir. Og mamman hans er alveg hjartanlega sammála, í hennar huga er hann fallegasta lamb sem hún hefur séð og ég er ekki frá því að henni finnist ég bara svolítið falleg líka. A.m.k. hnusar hún alltaf af mér blessunin soldið eins og hún sé að segja takk fyrir hjálpina Smile.

En að öðru. Róbert fer í túr þann 18. og er búinn að vera að flikka upp á bílinn, massa hann og bóna þannig að stirnir á hann í sólinni og ég saumaði meira segja nýjar gardínur í apparatið þannig að hann er nú aldeilis stórfínn. Annars gerðist dálítið skemmtilegt um daginn. Róbert var búinn að mixa þessa fínu aukalykla í eðalvagninn, því það var ekki til nema eitt sett, og var nú ekki lítið ánægður með sig , nú og lyklana. En daginn eftir voru þeir bara alveg gjörsamlega horfnir. Hann leitaði út um allt aftur og aftur og allt kom fyrir ekki.

En svo í gær þá voru þeir bara í boxinu sem að þeir áttu allan tíman að hafa verið í og var búið að leita i a.m.k þrisvar sinnum. Ég hló pínulítið. Wink Það er nefnilega stundum eins og einhver fái lánað hjá manni svona dót og skili því svo bara aftur, en maðurinn minn trúir nefnilega alls ekki á svoleiðisTounge

 


jæja loksins komin með nýtt blogg

Góðan og blessaðan daginn.

Loksins er ég komin með nýja bloggsíðu, er reyndar búin að hafa hana lengi án þess að hafa hugmynd um þaðLoL, svolítið týbísk ég.

En langt er orðið síðan síðast og ég nenni nú ekki að rekja allt sem á dagana hefur drifið hér. Ástæðan fyrir bloggleysinu er sú að blogcentral lokaði fyrir færslur á hina síðuna vegna lítillar notkunar. Je right, ég var nú að minnsta kosti alltaf að blogga. Enn eru örfáar eðalær óbornar, báru nú samt tvær í morgun. Tillitssamar þessar elskur því að í gær fór ég í starfsmannferð í vinnunni. Við ákváðum að fara nú ekki langt þetta skiptið og fórum á Blönduós og skoðuðum svo Blönduvirkjun. Enduðum svo ferðina á alveg frábæru grillhlaðborði á Gauksmýri. Alveg svakalega góður maturinn hjá þeim.

Í dag erum við Elvar ein í kotinu því að Elsa og Róbert fóru suður í morgun í brúðkaup hjá Katrínu og Gísla. Við tókum hlutverk okkar alvarlega sem bústjórar og vorum í sólbaði megnið af deginum milli þess sem við gáfum og gáðum að fénu og ráðskuðumst með hundana.

En ekki meira að sinni en ég læt nú vafalaust gamminn geisa innan skamms því að tjáningarþörfin hefur magnast upp í bloggleysinu. Eigiði góðar stundir og væri nú gaman að fá smá kvitt til að vita hverjir eru búnir að fatta þessa síðu.

Bestu brúnkukveðjur Hvalshöfðabóndinn


« Fyrri síða

Um bloggið

Hafdís Brynja Þorsteinsdóttir

Höfundur

Haddy
Haddy

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband